Me, me, me.

APATHY ON THE RISE, NO ONE CARES

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavik, Iceland

mánudagur, febrúar 28, 2005

Gvöð, ég má til.
Veit ekki hvort þetta flokkast undir menningarmun en úff. Fyrr má nú vera.
Í fyrsta lagi þá elda kínverjinn og tíavanirnir af og til eitthvað sem lyktar óóógeðslega. Ef við búum til fýluskala (0-10), þar sem 0 er ferskt loft og kæst skata er 7 þá elda þau eitthvað sem er 10. Það lyktar pínulítið eins og fjós en samt verra og svolítið eins og, tja, skítur. Og þessi lykt hefur hangið yfir íbúðinni í tvo daga núna. Við borðum núna inni í herbergi og það er samt lykt af okkur. :(
Í öðru lagi. Þá ryksugar taívanski strákurinn ganginn daglega. Ganginn. Sem hreingerningarkonan sér um. Daglega. Ryksugar. Hvað er það?
Jæja. Það er samt skárra að búa með snyrtipinna en hitt.
En þetta með lyktina, herre gud!!! Hvað ætli þetta sé?? Þetta er eitthvað þurrkað sem þau leggja í bleiti og sjóða.
Ég get ekki notað nein nöfn því taívanski strákurinn er að skrifa doktorsritgerð um blogg og gæti kíkt á bloggið mitt, hahahaha!
Kostas er að fara á múm tónleika en ekki við íslensku skvísurnar. Við Sólrún ætlum bara í mat til Steinunnar og fá okkur rauðvín. Rauðvín? Við? Erum að verða eins og gaurinn í Sideways. Drekkum bara Pinot Noir og hötum Merlot... hahaha... hötum ekkert Merlot! Þykjumst bara til að vera svalar núna! Drekkum sko allt rauðvín! Nema vont rauðvín.

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Setti inn nýjar myndir, þær eru samt allar bara af sýningunni í V & A þannig að þær eru kannski ekkert rooosalega interessant... mér finnst það samt.

Fórum út að borða í gær á Viva Zapata og fengum okkur kokteila í eftirrétt, handale handale.
Totnes í næstu viku...
hey, svo er ég búin að kaupa flugmiða heim þann þriðja maí, elska Icelandexpress og tilboðin þeirra... fékk flugmiða á skít og kanil. Skid og ingenting. Núll og nix. Þú skilur hvað ég er að fara. Ódýrt.

laugardagur, febrúar 26, 2005

Skemmtileg borg, þessi London. Við fórum aftur á Victoria & Albert safnið í dag og í þetta sinn fórum við (meðal annars) á sýningu sem heitir Specters. Og þetta er sú allra flottasta sýning sem ég hef séð. Ég held að sýningarstjórinn sé lítil gyðja barasta. Svona sýningargyðja. Mæli sterklega með henni (sýningunni, þekki konugreyið andskotann ekki neitt), hún verður uppi þangað til í byrjun maí að ég held. Kíktu barasta hérna:
http://www.vam.ac.uk/collections/contemporary/spectres/

Svo er búið að snjóa í Bretlandi og það er nær lygilegt hvað Bretar eru miklir aumingjar hvað snjó varðar. Það snjóaði til að mynda örlítið á miðvikudaginn, eiginlega bara slabb sko, max 2 cm., og skólum um allt land var lokað. Og svo keyra þeir um á blöðrunum sínum eins og... tja, eins og beljur á svelli en með blöðrur undir klaufunum.
Og svo kvarta allir hrææææðilega undan kuldanum (rétt um frostmark). Og ég hlæ og hlæ og segi: Ho ho ho jú sjúd træ kommín tú Æsland! (en með rússneskum hreim, það virkar betur)

Tölvan mín er búin að vera óþekk, var ég búin að minnast á það? Af og til vill hún ekki kannast við netkortið en segir mér, brosmild og hýr, að ég sé komin með nýtt hardware. Bull og vitleysa bara. Og svo slekkur hún á sér í gríð og erg. Og svo vill hún bara tengjast netinu á kvöldin, sem er nú barasta plain weird.
Góða nótt.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Búin að skila ritgerðinni minni... lalalæ. Er svo fegin, og er einhvurn veginn eins og tóm blaðra núna. Afar þreytt og skringileg. Eeeen ég er samt til og klár í næsta verkefni... íha.
Nú er það sko bara heilsuátak, pilates á hverjum degi og yoga á föstudögum. Ótrúlegt hvað ég er fljót að finna fyrir bakinu þegar ég sit fyrir framan skrifborð allan daginn. Svo ég verð víst að reyna að koma vöðvunum í lag. Eða laglíki, að minnsta kosti.

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Hædíhó,
nú eru þau Sigga og Marc farin.
En það var voða gott að fá þau í heimsókn. Við fórum í svakalega túristalega labbitúra (Big Ben, Buckingham og Hyde Park...) og svona, fórum í Harrods og Viktoríu & Albert safnið (það var algjört æði)... svo komum við heim og borðuðum nammi og drukkum kokteila og ég fékk ofnæmi og varð öll upphleypt í framan. Oooj. En er orðin voða sæt núna. Eða svoleiðis.
Er búin að vera að klára ritgerðina mína, á bara eftir að snurfusta heimildaskrána núna. Komin með ógeð á henni. Ritgerðinni, ekki heimildaskránni. Hún er æði.

Hey, setti inn nýjar myndir. Þær eru í janúarmöppunni. Þótt að þær séu teknar í febrúar. Svona er lífið.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Sigga og Marc eru komin og við borðuðum saman frönsk croissant og pain au chocolat í morgunmat. Namm. Núna eru S, M og S að flakka um borgina en ég er að skrifa... er komin 3995 orð... klára amk 800 í viðbót og þá get ég farið og hitt þau.
Lykilatriði við ritgerðasmíð er góð tónlist. Þetta misserið rísa Sufjan Stevens, Yo La Tengo, Iron and Wine og Damien Rice eins og guðir og gyðjur yfir vitum mínum og tölvuskjá.
Vona bara að snilligáfan smitist yfir í ritgerðasmíðin... kannski ekki miklar líkur á því...
Skrifa meira, skrifa, skrifa, skrifa... SKRIFA (svipuhögg)
Oh, nenn'essiggi.

Á faraldsfæti
Það er nú meira hvað fólk flakkar þessa dagana! Og sem betur fer er ég ein af þessu fólki!

Á morgun koma Sigga og Marc í heimsókn frá Parísarborg og verða í Lundúnum yfir helgina (...og klára ég vonandi ritgerðina mína á morgun annars er ég ömurlegur gestgjafi).

Og svo í næstu viku förum við Sólrún til
Totnes
og heimsækjum Maríu og fílum okkur í nýaldar/neó-hippastemmingunni þar (kristalla, pleeease)...

Og svooooooog...
förum við til
ROTTERDAM um páskana! Já, til útlanda! Sólrún er að fara að bjarga búslóðinni og ég ætla að þræða fögur stræti borgarinnar (hehe... er fullvissuð um að hún hafi "ákveðinn sjarma"... hmmm)... Verðum hjá Ragga og Sigrúnu og eldum eflaust dýrindist páskamat.

Og svoo, og svooo... verður það bara hardcore ritgerðasmíð. Ég verð ein hérna í apríl... og flyt svo heim í maí ef gvöð og lökkan lofar.
Óttalega er þetta allt fljótt að líða. Jæja. Góða nótt

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Einu sinni var ekki til neitt internet og þegar maður þurfti að leita að einhverju þurfti maður bara að fara á bókasafn eða hlaupa milli fólks og spyrja og spyrja og spyrja. Og við áttum Brittannicu í trilljón bindum og það var flottast í heimi því maður gat flett öllu upp og það voru sko ekki allir sem gátu það. Og símanúmer, þau fann maður í þykkri bók, þið kannist kannski við hana, maður skiptir ennþá um hana einu sinni á ári og skoðar myndirnar framaná henni og pressar kannski blóm í henni en þá er það líka upp talið. Og þá var geðveikt ömurlegt að vera skotinn í einhverjum því maður gat ekki einu sinni dundað sér við að fletta upp kennitölu viðkomandi eða skoða símanúmerið þeirra og fletta upp hverjir aðrir bjuggu í sama húsi og bara almennt tékkað á hlutunum. Stundum getur svoleiðis komið manni að miklu gagni, til að mynda ef einhver bloggar hræðilega lífsreynslusögu er varðar viðkomandi. Mjög sniðugt. Og svo, einu sinni, þá voru allir símar fastir með snúru við veggi og það var ekki einu sinni hægt að skoða textaskilaboð á þeim, hvað þá skoðað fréttirnar eða tekið vídjómyndir á þá og sent þá með blútúþ eða infrared í fartölvuna sína. Og ef maður var í útlöndum, forgetaboutit, það var ekki einu sinni hægt að skoða Moggann eða Fréttablaðið (eða Vísi eða whatever í gamladaga) hvað þá horfa á fréttirnar og Gettu betur í tölvunni.
Ég ætla að horfa á dvd mynd í fartölvunni minni og spjalla við vini mína heima á Íslandi á meðan, kannski á Skype eða kannski bara á msninu, og svo taka mynd af mér og senda í myndasíma til einhvers í öðru landi. Og svo ætla ég að plögga miðtaugakerfinu við rúmið mitt og búa til brjálæðislegar bíómyndir sem eru búnar til úr ímyndunaraflinu mínu og minningum og eplum og sólberjasafa.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

gvuuuuð hvað ég nenni ekki að skrifa meira... 200 orð í viðbót samt... ugh, the pain the pain... þá get ég farið að borða pizzu og horfa á Gettu betur (hey, when in Rome do as the Icelanders do).

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Ú. A. Vandræðalegt. Það var eitthvað svona police raid áðan fyrir utan húsið okkar. Alveg riiisa löggubíll með svona 7-8 löggum að stoppa einhverja tvo gaura og leita í bílnum þeirra. Við Sólrún lágum með nefið á glugganum, afar pent að sjálfsögðu, að stara úr okkur augun þegar skyndilega skælbrosir ein löggan og veifar okkur stórt og vinalega. Við hrökkluðumst náttúrulega í burtu, afar hratt... héldum við værum alveg rosalega laumulegir gluggagægjar á fjórðu hæð...

mánudagur, febrúar 14, 2005

654 orð núna... ef ég skrifa 346 í viðbót núna get ég haft það kósí í kvöld... harkan SEX og KÝLA Á'ÐA (er að reyna að hljóma keppnis- og íþróttaleg... hvernig gengur mér?)

...eftirfarandi frétt birtist á mbl.is í dag 14. febrúar... copy/paste orðrétt:

Þúsundir manna veðurtepptar í Austurríki
Hollenska konungsfjölskyldan og Vaclav Havel, fyrrum forseti Tékklands, eru á meðal allt að 15.000 manna sem eru veðurtepptir í Vorarlberg-héraði í vesturhluta Austurríkis vegna mikillar snjókonu og hættu á snjóflóðum.

Ég er eiginlega ýkt svekkt á því að þeir hafi ekki birt mynd af snjókonunni.

Í dag er valentínusardagur og þykir hann merkilegur í mörgu útlandinu. Mér finnst hann ekkert sérlega merkilegur, fremur rjómakökulegur og væminn.

Í dag ætla ég að skrifa 1000 orð í ritgerðinni minni. Er komin upp í 400. Þetta reeeeddast.

laugardagur, febrúar 12, 2005

Klukkan er tvö eftir miðnætti og ég opnaði gluggann minn því hitinn var svo ógurlegur. Inn um gluggann streyma óhljóð, fullir bretar syngja fótboltalög og öskra, einhver æpir á annan og svo heyrist mér að einhver sé að berja á skilti eða einhverju málmkenndu. Þetta er svolítið eins og að reyna að sofna í tjaldi á útihátíð. Nema að hérna titrar líka allt vegna kyrrstandandi strætisvagna.
Í dag fórum við Sólrún aftur í jógatíma og til að klára að teygja allt sem mögulega er hægt að teygja ákváðum við að elda ógurlega góða súpu (þessa mexíkósku) og teygja svolítið á maganum innanverðum. (Ég notaði orðið teygja þrisvar sinnum í þessari setningu. Merkilegt.)
Horfðum svo á Witches of Eastwick, sem er svo lystilega ljúffeng, og English Patient, sem er jafn sorgleg og hún er falleg. Stálum bara sjónvarpinu úr eldhúsinu... enda íbúðin hálf tóm núna, Saira úti, Cho-I í Taiwan og ætli Franny sé ekki bara í Liverpool eða eitthvað.
Núna heyrist mér að helstu ólátabelgirnir séu farnir með strætó (væntanlega ekki langt í næsta hóp sem fer í næsta vagn). Ég ætti þá kannski bara að sofa. Hef ekki verið nógu dugleg að skrifa og verð að vera úthvíld og atorkusöm í morgunsárið.
Ætla að sofna með Sufjan Stevens í eyrunum. Góða nótt.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Öskudagur. Og ég er ekki í grímubúning. Hugsasér (á innsoginu). Í fyrra var ég kúreki og þar áður Zorro (haha, feministinn að storka kynjahlutverkunum)... en í ár er ég bara útlendingur.
Ransý sendi mér agalega sæta mynd af Ernu í sínum búningi, hún er ísbjörn.
Jæja, best að fara að læra. Sjáumst.

p.s. ég hefi verið að flokka niður tenglana mína að undanförnu, bara nokkuð arbitrary, eða eftir kyni, aldri og hópastærð (en þetta mun róterast næst verður það hárlitur). Allavega. Mig vantar strákatengla til að halda öllu jöfnu, einhvurjar uppástungur? Eða bara eitthvað skemmtilegt? Fríða, má ég ekki láta krílið ykkar Jóa inná? Ég er bara með tvö bloggbörn, sniff... Og Inga Lilý, er ekkert blogg í gangi eða hvað?? Fólk verður nú að blogga svo aðrir geti stundað persónunjósnir... ;-)

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Fleiri persónuleikapróf... samkvæmt þessu er ég "uncomplicated and simple"...







You Are the Girl Next Door!


You're caring, warm, and the girl that nice guys want to marry.
Uncomplicated and simple, you've got an easy going attitude guys love.
But this doesn't mean you're dull - far from it!
You're a great conversationalist, and you're an expert at living the good life.




What Kind of Girl Are You? Take This Quiz :-)




Find the Love of Your Life
(and More Love Quizzes) at Your New Romance.





En ég er hætt að vera bitur og bölva karlmönnum, því Arnar verður svo leiður. Í staðin skal ég vera málefnaleg og uppbyggileg...

og lít á girl next door sem útgangspunkt... samanber næsta próf sem ég tók:






You are Bettie Page


Girl next door with a wild streak
You're a famous beauty - with unique look
And the people like you are cultish about it




What Famous Pinup Are You? Take This Quiz :-)




Find the Love of Your Life
(and More Love Quizzes) at Your New Romance.




Sko, Girl next door with a wild streak!!

Gleðilegt nýtt ár!
Nú er ár hanans gengið í gang en ár apans liðið.
Hann Jeff sem býr með mér var að gefa mér rosalega flott kínverskt kort í tilefni dagsins. Alveg ekta sko, kínverskt. Með nammi í og allt. Allt saman afskaplega múltíkúltúrelt hérna, skal ég segja ykkur.

Nú verð ég að fara að læra af meiri krafti, það er ekkert sem heitir. 5000 orð á örfáum dögum og hananú. (Verst hvað mér gengur illa að finna heimildir!)

Og svoooo... er Sigga að fara að koma! Hún kemur þann átjánda (þá verð ég sko heldur betur að vera búin með eitt stykki ritgerð!) og verður heila helgi. Ég hlakka mikið til.

Síðan ætlum við Sólrún að heimsækja Maríu í Totness þar sem ég ætla að taka upp 20 mín. mynd af sveitasælunni... mmmdaaaa...

Nóg að gera, sko, í útlandinu, sko.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Hmmm... tók persónuleikapróf...

You Are A Relationship Rescuer!

You don't ruin relationships, if anything you keep them together
The key: you respect yourself and your guy. Which goes further than you might think.
You simply treat your guy how you would like to be treated... the old golden rule.
And in return, he treats you like gold - or at least tries. And how perfect is that

Do You Ruin Relationships? Take This Quiz :-)

Find the Love of Your Life (and More Love Quizzes) at Your New Romance.


MY ASS!!!
Þessi lýsing hér að ofan á svosem alveg við mig. Afskaplega skilningsrík, ég. En ólíkt þessu "ídeal sambandi" sem slík hegðun á að framkalla þá er hún öllu heldur fyrirtaks leið til að fá karlmenn til að hafna mér fyrir næstu frekju! Karlmenn eeelska frekjur og konur sem eru ógeðslega leiðinlegar og kröfuharðar við þá. Veit ekki af hverju. Þetta er mjög skringilegt fyrirbæri, og fjandakornið ef ég átta mig á því! Og svo koma þeir til manns (hypothetically speaking, en samt líka stundum í alvörunni) kvartandi yfir kærustunni og segja: af hverju er ég ekki með einhverri eins og þér... alveg hissa...
En þeir vilja barasta ekkert einhverja næs. Þeir vilja frekjur.
Karlmenn eru masókistar.

Ætli ég gæti fengið vinnu við að skrifa svona advice columns í blöðum??
hmm... eins og orðatiltækið segir: Þeir sem ekki geta, kenna...
Ég væri afar lunkinn kennari.

(...svolítið sorglegur kennari kannski? ...bah, bite me!)

Setti nýjar myndir inn... en bara nokkrar... þær eru í janúar 2005 möppunni... en eru samt teknar í febrúar... hvurslags eiginlega skipulag er þetta?

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Enn ein helgin búin. Fór niður í bæ um helgina og hitti Símon, hollenskan vin Sólrúnar og Egils, og vinnufélaga hans með Sólrúnu og við fórum á skondið kaffihús í Soho með þeim sem var bleikt og gyllt og franskt. Svo bökuðum við bollur (fyrir bolludaginn) í dag og smjöttuðum vel á og buðum Kati í kaffi.
Í dag var haldið upp á afmælið hennar Ernu litlu frænku minnar sem er núna orðin tveggja ára gömul. Jedúddamía. Sakna hennar.
Hvað fleira? Fékk pakka frá gamla settinu í gegnum Arnar, vin Steinunnar. Maður er farinn að verða útsjónasamari varðandi pakkaflutninga með tímanum. Takk ma og pa :-)
Og, hey, fór á British Museum (enn á ný)...
Engar sögur. Ekkert stórkostlegt, nema harðsperrurnar. Og svo sannarlega ekki The Terminal, sem við ösnuðumst til að horfa á áðan. Hrollur. Jahá.

Fylgist spennt með æsispennandi lífi Bryndísar. Haldiði í ykkur andanum. Allt að gerast.
Æ, geisp. Góða nótt.


laugardagur, febrúar 05, 2005

Yoga Bunny Detox
er uppáhalds drykkurinn minn hér í London. Hann fæst bara í Pret a manger verzlunum og er afar hollur og góður (ekki einu sinni spírítus í honum).
Svo, í tilefni af þessu, fórum við stöllurnar í Jóga hér í skólanum. Ég hef alltaf ætlað í jóga, reyndi einu sinni sjálfshjálparbók en gekk ekki. Svo.
Jóga.
Mætum í þreyttann leikfimissal, borgum vægt gjald (þrjú og hálft pund), drögum fram motturnar (fjólubláar) og gerum okkur tilbúnar.
Í salnum var hópur ungra kvenna og einn piltur og svo þjálfarinn.
Svo byrjar tíminn, fyrst talar þjálfarinn, afar jógalegur ungur maður, lágt við okkur (ég heyrði ekkert) og síðan stóðum við upp, settum saman hendur...
og allir byrja að kyrja.
Nema ég.
Ég er að reyna að hlæja ekki upphátt.
Flissa vandræðalega upphátt, eða svona í gegnum nefið, rosalega fullorðinsleg.
Þetta er hræðilegt. En þöglar, alvarlegar stundir fá mig til að
hlæja. Hvað þá ef fólk er að taka sig alvarlega.
En annars gekk þetta fremur vel. Nema þegar ég hélt ekki jafnvægi. Og þetta er hörkupúl, hver hefði fattað það?

Ætlaði reyndar ekki að fara því ég fékk annað fríki mígreniskast. Sjóntruflanir. Missti allaveganna ekki málið í þetta sinnið. Ýkt hallærislegt. Ég vil fá eðlilega sjúkdóma.
Eðlileg vandamál.

Flest fólk á mínum aldri er til að mynda komið með langan lista af tilfinningalegum farangri. En ég?
Langa, tilfinningaríka sambandið sem var svo erfitt að hætta í... aldrei átt'ða! Erfitt að láta enda ná saman... neibb, aldrei flutt að heiman! Erfiðir vinnutímarnir... neibb, aldrei aukavinna í mínum láglaunastörfum!

Ég er að verða eins og svona sorglegir menn á fimmtugsaldri sem búa ennþá hjá mömmu sinni og vinna á færibandi við að skrúfa tappa á tannkremstúpur.
Mitt helsta tilfinningafargan er að hafa ekki tilfinningafargan, að minnsta kosti ekki veraldlegt. Og það er drulluerfitt skal ég segja þér...

Nei, ég hef engar bældar tilfinningar og reiðar minningar í töskunni minni... en fjandakornið ef það er ekki ímynduð, fjólublá nýrnabaun að syngja jarðarfarasöngva þar.

(ekki hlusta á mig, ég var að drekka brennivín í eplasafa)

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Hædíhó...
mikið aaaafskaplega líður tíminn hratt eitthvað...
það er kominn febrúar barasta.
Og ég er í miðjum heilastormi varðandi tilhögun næstu mánaða... gæti jafnvel unnið lokaverkefnið á Íslandi í sumar... hmmm... hljómar voða freistandi... sér í lagi fjárhagslega. Hlutirnir eru þó allir enn að gerjast og maður veit aldrei með svona gerjun, gæti allt saman sprungið í loft upp...
En (og nú veit ég þið verðið virkilega glöð, börnin góð) ég er búin að gera hreint í kringum mig og að þessum orðum loknum fer ég líka sjálf í stuuurtu og þá get ég sofið vel í nótt... hí hí hí...